Töluverðar óánægju gætir innan knattspyrnudeildar Þórs, þar sem menn sjá fram á að þurfa að æfa og spila leiki
yngri flokka félagsins í Boganum í allt sumar, verði ekki strax sett gerfigras á Sunnuhlíðarvöllinn. Búið er að bjóða
út framkvæmdir á Sunnuhlíðarsvæði og verið er að vinna útboðsgögn vegna aðalvallar annars vegar og stúkubyggingar hins
vegar. Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs segir að það hafi legið fyrir frá því að umræða hófst um
þessa framkvæmd að hún myndi hafa áhrif á aðstöðu félagsins til knattspyrnuæfinga meðan á henni stæði og
áhrifin verði tvímælalaust mest sumarið 2008.
"Bæjaryfirvöld og stjórn Þórs hafa verið sammála um að vinna saman að því að draga úr þessum áhrifum eins og
kostur er t.d. með því að nýta Bogann sem best á þessum tíma. Auk þess er ljóst að austurhluti núverandi svæðis
nýtist til æfinga og vonir standa til þess að hægt verði að nota Sunnuhlíðarsvæðið þegar líða tekur á
sumarið. Það hefur legið fyrir frá því að samningur bæjarins og Þórs var gerður að Sunnuhlíðarsvæðið
yrði útbúið sem æfingasvæði með náttúrulegu grasi," segir Hermann Jón. Hann segir aðspurður að bæjaryfirvöld hafi
aldrei samþykkt að lánsfé yrði notað til þess að leggja gerfigras á Sunnuhlíðarsvæðið en að sú hugmynd hafi
verið viðruð af fulltrúum Þórs.