13. nóvember, 2007 - 12:40
Menntamálaráðherra hefur að tillögu húsafriðunarnefndar ákveðið að friða þrjú hús á Akureyri. Húsin sem um ræðir eru Hafnarstræti 94, Hafnarstræti 96 og Hafnarstræti 98 og nær friðunin til ytra borðs húsanna. Lengi hefur staðið til að rífa húsið við Hafnarstræti 98, Hótel Akureyri, og byggja nýtt hús á lóðinni en nú er útséð með að af því verði. Húsin eru öll talin hafa mikið gildi fyrir umhverfi sitt, ýmist sem hornhús eða áberandi kennileiti í miðbæ Akureyrar. Á bæjarstjórnarfundi á Akureyri síðar í dag átti að taka fyrir fundargerð skipulagsnefndar, sem samþykkti nýlega að leggja til við bæjarstjórn að niðurrifið verði samþykkt þar sem af friðun hússins hafði ekki orðið á þeim tíma. Fram kemur í fundargerð, að 20. september sl. hafi borist bréf frá Húsafriðunarnefnd ríkisins þar sem lagt er til við menntamálaráðherra að ytra borð hússins verði friðað og 24. september sl. voru andmæli Akureyrarbæjar send við tillögum Húsafriðunarnefndar.
Samkvæmt húsafriðunarlögum getur ráðherra friðað samstæður húsa sem hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi eins og gert er nú. Vignir Þormóðsson, einn fjórmenninganna sem standa að félaginu Hafnarstræti 98 ehf., sagði í Vikudegi nýlega að félagið hefði þegar hafið framkvæmdir við að reisa nýtt hús á lóðinni hefði Húsafriðunarnefnd ríkisins ekki komið óvænt að málinu á síðustu stigum undirbúningsins. Hann sagði að yrði niðurstaðan sú sem nú er orðin, myndu menn setjast niður og ræða skaðabætur. „Það er ljóst að við erum með skaðabótamál í höndunum og það eru margir búnir að leggja í kostnað vegna þessa máls," sagði Vignir.