Þórsarar eru úr leik í úrslitakeppni Iceland Expressdeildarinnar í körfubolta eftir að hafa tapað öðru sinni fyrir Keflavík í einvígi liðanna um sæti í 8-liða úrslitum. Fjölmargir áhorfendur troðfylltu Íþróttahús Síðuskóla þar sem leikurinn fór fram og virkaði stemmningin sem vítamínsprauta á Þórsliðið sem lék á als oddi í fyrri hálfleik og hafði forystu eftir hann 50:37. Framan af þriðja leikhluta virtist samt allt ætlaði að leika í lyndi hjá Þórsurum því þeir héldu forystu sinni og bættu reyndar um betur og voru komnir með 16 stiga forskot á tímabili. Allt í einu hins vegar gerðist það sem Þórsarar höfðu óttast allan leikinn, það losnaði um skyttur Keflvíkinga og þær fóru að hitta. Munurinn minnkaði hratt og var kominn niður í fjögur stig áður en þriðja leikhluta lauk í 71-67.
Ekki byrjaði fjórði leikhluti vel því að Cedric Isom, stigahæsti leikmaður liðsins í vetur, fékk sína fimmtu villu og þar með útilokun frá leiknum þegar um 8 mínútur voru eftir. Þar að auki voru þeir Luka Marholt og Óðinn Ásgeirsson komnir í villuvandræði. Vænbrotnir Þórsarar neituðu hins vegar að gefast upp og þrátt fyrir að Keflvíkingar kæmust yfir og næðu fimm stiga forystu þegar ekki lifðu nema tvær mínútur af leiknum. Undir lokin gátu Þórsarar jafnað því þeir fengu boltann þegar um 10 sekúndur voru eftir og staðan 86:83 fyrir Keflavík. Luka Marholt geystist upp með hann og sendi á Magnús Helgason sem skaut en ofan í fór boltinn ekki. Þórsarar náðu frákastinu og Óðinn Ásgeirsson náði ágætis lokaskoti sem dansaði á körfunni en ofaní vildi boltinn ekki og sigur Keflvíkinga því staðreynd. Þórsarar börðust af alefli í leiknum en slæmur leikkafli í þriðja leikhluta þar sem þeir glötuðu niður forskoti sínu, ásamt því að missa Cederic Isom útaf í byrjun fjórða leikhluta, reyndist liðinu dýrkeypt gegn hinu sterka liði Keflavíkur.Gangur leiks: 6:7 - 17:11 - 25:20 - 34:27 - 41:30 - 50:37 - 56:39 - 62:51 - 71:67 - 73:71 - 77:81 - 83:86.
Stig Þórs: Luka Marholt 23, Cederic Isom 19, Magnús Helgason 10, Robert Reed 9, Hrafn Jóhannesson 8, Jón Orri Kristjánsson 6, Bjarni Árnason 4, Þorsteinn Gunnlaugsson 2, Óðinn Ásgeirsson 2.