Úrvalsdeildarlið Þórs náði ekki að tryggja sér sæti í úrslitakeppni Iceland Express-deildarinnar í körfuknattleik
í gærkvöld, þar sem liðið tapaði fyrir Grindavík 93-107 suður með sjó. Þórsarar höfðu 13 stiga forskot í
leikhléi, 50-37 en í síðari hálfleik fór Þorleifur Ólafsson hamförum í liði Grindavíkur og skoraði þá 34 af
36 stigum sínum í leiknum. Hjá Þór var Luka Marolt stigahæstur með 27 stig. Á sama tíma gerði Tindastóll sér
lítið fyrir og lagði Íslandsmeistara KR að velli á Sauðárkróki, 96-94 í framlengdum leik og halda Stólarnir því enn
í vonina um að komast í úrslitakeppnina.
Í Stykkishólmi höfðu bikarmeistarar Snæfells betur á móti ÍR-ingum, 87-83 og í Grafarvogi unnu Njarðvíkingar öruggan
sigur á Fjölni, 98-83. Baráttan um síðasta lausa sætið í úrslitakeppninni er því enn opin. Fyrir lokabaráttuna er ÍR
í 7. sæti með 18 stig eins og Þór sem situr í 8. sætinu. Tindastóll er með 16 stig og Stjarnan 14 stig en Stjarnan á tvo leiki eftir.
Stjarnan sækir Hamar heim í kvöld og í lokaumferðinni á þriðjudag mætast ÍR og Hamar, Stjarnan og Tindastóll og
Þór fær Snæfell í heimsókn.