Þekktur rússneskur kór syngur á Akureyri

Víðþekktur rússneskur kór, TRETYAKOV, syngur á Akureyri annan í páskum, 24. mars nk. Það er einstakt tækifæri, sem þarna býðst, að hlýða á óviðjafnanlegan rússneskan söng. Þessi kór kom til Reykjavíkur í desember 2005 og þóttu tónleikar kórsins í Seltjarnarneskirkju einstakur viðburður í tónlistarlífinu. Kórinn syngur jöfnum höndum á tónleikum, á sýningum og við kirkjulegar athafnir, auk þess sem söngskóli er rekinn á vegum kórsins. Rússneska sendiráðið hefur, í samvinnu við AIM-Festival á Akureyri, haft milligöngu um þessa heimsókn. Einn af stærstu viðburðum AIM-Festival á Akureyri í júní nk. verður flutningur á einu stórbrotnasta kórverki allra tíma, Wesper op. 37 eftir Rússann Rachmaninov. Má líta á tónleika TRETYAKOV kórsins sem forboða þessa viðburðar. Kórinn syngur við guðsþjónustu að hætti rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Glerárkirkju og hefst athöfnin kl. 9:30 f.h. Síðar sama dag kl. 15 verða tónleikar í Akureyrarkirkju. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Nýjast