Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi L-lista telur að undanþáguákvæði frá útboðum á vegum Akureyrarbæjar hafi
verið túlkuð frjálslega.
Málið var til umræðu á fundi bæjarráðs í morgun. Oddur Helgi hafði óskað eftir yfirliti um hvenær 17. grein Innkaupareglna
Akureyrarbæjar hefur verið beitt, á árinu 2007 og það sem af er 2008. Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður og
Guðríður Friðriksdóttir framkvæmdastjóri Fasteigna Akureyrarbæjar mættu á fundinn undir þessum lið og þar var lagt fram
minnisblað til kynningar.
Oddur Helgi lagði fram svohljóðandi bókun:
"Það var tilgangur með setningu Innkaupareglna að útboð væri meginreglan. Einnig sbr. bókanir við samþykkt fjárhagsáætlunar. Ef
við getum ekki farið eftir eigin reglum vegna þess að þær eru gallaðar, ber okkur að breyta þeim.
Mér finnst undanþáguákvæði hafa verið túlkað frjálslega og er ekki sammála í öllum tilfellum.
Það ætti að vera vinnuregla þegar undanþáguákvæði er beitt að því fylgi skriflegur rökstuðnungur ásamt
formlegu samþykki frá þeim aðila sem undanþáguna veitir."
Bókun meirihlutans er eftirfarandi:
"Meirihluti bæjarráðs áréttar að undanþága frá útboði skv. 17. gr. Innkaupareglna Akureyrarbæjar hefur ekki verið veitt
árin 2007-2008 nema ríkar ástæður hafi verið fyrir hendi. Þær ástæður sem hafa réttlætt undanþágu eru af
ýmsu tagi, en fyrst og fremst skýrist beiting undanþáguákvæðisins af þenslu á byggingamarkaði. Akureyrarbær hefur í
þessum tilvikum leitað til þeirra fyrirtækja sem hafa haft forsendur til að framkvæma verkið. Vinna við endurskoðun Innkaupareglna bæjarins er hafin
og þessi umræða sýnir nauðsyn þess."