17. febrúar, 2008 - 11:56
Viðsnúningur hefur orðið í rekstri Háskólans á Akureyri, en á liðnu ári var skólinn rekinn með hagnaði í fyrsta
sinn frá árinu 2000. Ólafur Halldórsson framkvæmdastjóri Háskólans á Akureyri segir þetta vissulega ánægjulegt.
Háskólinn var rekinn með tapi árin 2001 til 2006, umtalsvert miklu eða um 100 milljónum á ári á tímabilinu frá 2003 til 2005 en
tapið nam um 15 milljónum króna á árinu 2006. „Við náðum svo að vera réttu megin við núllið í fyrra," segir
Ólafur. Megin skýringin á betri afkomu nú segir hann aðhald í rekstri, dregið hafi verið úr rekstri og kostnaði sem framast er unnt.
Þá koma til auknir fjármunir á fjárlögum sem og hafa aðrar tekjur háskólans aukist. Samningur við
menntamálaráðuneytið, sem var undirritaður í desember í fyrra um rannsóknir og kennslu, eykur mönnum einnig bjartsýni en með tilkomu
hans telur framkvæmdastjórinn að rekstrarútlitið sé gott á næstu árum. „Það er bjartara yfir en á undangengnum
árum, háskólanum hefur verið búið betra rekstrarumhverfi nú en áður," segir Ólafur.