Tappað á einnar milljónustu bjórflöskuna

Í morgun voru merk tímamót í Bruggsmiðjunni á Árskógsströnd, þegar tappað var á einnar milljónustu bjórflöskuna í framleiðsluvélum fyrirtækisins. Að sögn Agnesar Sigurðardóttur framkvæmdastjóra, hefur bjórinn Kaldi fengið frábærar viðtökur og framleiðslan því verið mun meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi. Bjórframleiðsla hófst hjá Bruggsmiðjunni þann 9. október 2006 og sagði Agnes að áætlanir hefðu gert ráð fyrir að það tæki þrjú ár að framleiða eina milljón flöskur en raunin hafi orðið önnur. Rúmu einu og hálfu ári frá því að framleiðslan hófst hefur því takmarki verið náð. "Ástæðan fyrir þessum góðu viðtökum er hversu varan er góð," sagði Agnes.

Í verksmiðjunni starfa 6 manns, þar er framleiddur bæði dökkur og ljós bjór og þá hefur verið bruggaður þar þorrabjór og páskabjór. Þá sagði Agnes að það færðist í vöxt og bjór væri sérmerktur fyrir fyrirtæki, t.d. í tenglsum við afmæli eða hátíðir. Þá væri alltaf vinsælt hjá fólki að koma í "vísindaferð" á Árskógsströnd, til þess að skoða verksmiðjuna og bragða bjórinn.

Nýjast