Tap hjá stelpunum

Þór/KA tók á móti sterku liði KR í annarri umferð Landsbankadeild kvenna í Boganum í kvöld. Þetta var hörkuleikur milli tveggja góðra liða. Fimm mörk voru skoruð og skoruðu KR stúlkur þrjú þeirra og fóru með sigur af hólmi.

Þór/KA skoraði fyrsta mark leiksins og kom það á 7. mínútu þegar Ivana Ivonvic gaf góða sendingu inn fyrir vörn KR þar sem Rakel Hönnudóttir tók við boltanum, lék á markmann KR og sendi boltann í autt markið. Vel gert hjá landsliðsstúlkunni. En KR stúlkum tókst að jafna metin og það gerði Hólmfríður Magnúsdóttir með góðu skoti í bláhornið á 30. mínútu. Átta mínútum síðar fengu Þórs/KA stelpur aukaspyrnu á hættulegum stað. Bojana Besic tók spyrnuna og þrumaði boltanum í slána og inn. Staðan í háfleik 2-1 fyrir Þór/KA

KR stúlkur náðu að jafna metin á ný á 52. mínútu þegar Hrefna Hrund Jóhannesdóttir skoraði með laglegu skoti í fjærhornið. Eftir þetta tók KR öll völd í leiknum og þriðja markið lá í loftinu. Það kom tíu mínútum fyrir leikslok, var þar að verki Hólmfríður Magnúsdóttir með sitt annað mark í leiknum. Lokatölur 2-3 fyrir KR og Þórs/KA stelpur óheppnar að fá ekkert út úr leiknum.

Nýjast