Leikmenn Akureyri Handboltafélags vilja eflaust gleyma leik liðsins gegn Val í N1-deild karla í KA-heimilinu í dag sem fyrst. Valur fór með tíu marka sigur af hólmi 30-40.
Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn, Akureyri hóf leikinn betur en svo kom góður kafli hjá Val þar sem þeir náðu fjögurra marka forystu 12-8 þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður. Akureyri átti þá ágætis kafla og þegar stutt var til leikhlés var munurinn eitt mark, 14-15. Valur átti hins vegar góðan endasprett og staðan í hálfleik 19-16. Hafi menn vonað að Akureyri myndi taka við sér í síðari hálfleik, slökknuðu þær vonir á fyrstu tíu mínútum hálfleiks. Valur skoraði átta mörk gegn einu frá Akureyri á þessum kafla og höfðu þar með náð 10 marka forystu 27-17. Ekki stóð steinn yfir steini í leik Akureyrar á þessum kafla og átakanlegt að horfa á liðið hreinlega koðna niður.
Sem betur fer tóku þeir sig aðeins saman í andlitinu og héldu í horfinu það sem eftir var leiks en þeir gerðu ekkert meir en það, lokatölur 30-40. Síðari hálfleikur er líklega einn sá lélegasti sem handboltalið frá Akureyri hefur sýnt í fjölda ára. Algjört andleysi og áhugaleysi einkenndi leik liðsins. Varnarleikurinn var ekki góður en markvarslan var nánst engin. Skipti engum máli hvað Valsarar gerðu, nær öll skot þeirra rötuðu í markið. Greinilegt var að liðið saknaði markvarðars síns, Sveinbjarnar Péturssonar, mikið en hann var meiddur. Þeir ungu strákar sem við hlutverki hans tóku voru ekki tilbúnir að þessu sinni en þeirra tími mun koma. Slök markvarsla segir hins vegar ekki allt, því eins og áður sagði var varnarleikurinn engan veginn líkur því sem menn eiga að venjast hjá Akureyrarliðinu.
Akureyri er því eftir sem áður í 6. sæti deildarinnar og endar þar, sama hvernig síðustu tveir leikir deildarinnar fara.