11. nóvember, 2007 - 11:17
Nú styttist í að suðurálma Sjúkrahússins á Akureyri verði tekin í notkun, en nú nýverið var göngudeild húðsjúkdóma sem staðsett er í álmunni tekin í gagnið. Í vikunni verður svo opnuð mótttökudeild í byggingunni, en þar munu m.a. koma sjúklingar lyfjadeildar og eins verður þar móttaka fyrir sykursjúka, m.a. fyrir þá sem koma í sárameðferð. „Við það mun þjónusta okkar aukast töluvert," segir Þorvaldur Ingvarsson lækningaforstjóri Sjúkrahúss Akureyrar. Ný lyfjadeild verður svo loks opnuð í byggingunni í desember næstkomandi, en hún er fyrst og fremst fyrir krabbameinssjúklinga sem eru í lyfjameðferð. Eins má nefna að opnuð verður ný speglunardeild í suðurálmunni, þar sem fengist er við meltingarfærasjúkdóma og við það verður unnt, að sögn Þorvaldar, að veita betri þjónustu en nú er, enda býr deildin nú við þröngan kost á núverandi stað.