Bændur hafa ekki farið varhluta af þessu, frekar en aðrir landmenn. Það er því vandasamt að verðleggja sauðfjárafurðir segir í frétt á vef félagsins, því allir bændur hafa þörf fyrir hækkun á sínum afurðum, en á sama tíma hafa yfir 30% launamanna orðið fyrir tekjuskerðingu auk þess sem kaupmáttur launa hefur minnkað verulega. „Kaupgeta íslenskra heimila hefur því minnkað verulega og þarf því að huga sérstaklega að því að verðleggja ekki vörur út af markaði. Minnkandi kaupgeta hefur valdið því að verulegur samdráttur hefur orðið í sölu kjöts innanlands, sérstaklega hefur þetta verið alvarlegt nú síðustu fjóra mánuði. Þessi sölusamdráttur hefur bitnað hvað harðast á lambakjöti."
Þrátt fyrir minni innanlandssölu dilkakjöts hefur orðið aukning í útflutningi. Þar hefur lág skráning krónu gagnvart öðrum gjaldmiðlum vegið þyngst. Útflutningur dilkakjöts er vænlegri en áður, en þó ber þess að geta að miðað við sölusamdrátt innanlands stefnir í a.m.k. 2500 tonna útflutningsþörf, sem er um 1000 tonnum meiri útflutningur en fyrri ár. Að auki verði að hafa í huga að ekki eru bara vandamál í efnahagslífinu á Íslandi, aðrar þjóðir berjast líka við kreppu. Það er því ekki alveg gefið að auðvelt sé að flytja þetta magn út fyrir viðunandi verð.
Nýr búvörusamningur hefur tekið gildi en honum fylgir ekki útflutningsskylda, þá hefur geymslugjald sem áður gekk til sláturleyfishafa verið lækkað. Óvarlegt þykir við þessar aðstæður að hækka verð á innanlandsmarkaði, en hækkun sem gengur til bænda er hækkun á það sem áður var útflutningsverð og nemur sú hækkun 9,4% á heildarverði dilkakjöts frá fyrra ári.