Stefnt að fjölgun starfsmanna Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar

Stefnt er að því að fjölga starfsmönnum Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar Íslands úr átta í fjórtán. Stofnunin heldur ársfund sinn á Akureyri í dag og á morgun, þriðjudag. Skrifað var undir tvo samninga milli Háskólans á Akureyri og Náttúrfræðistofnunar í dag, sem báðir fela í sér aukna samvinnu þessara tveggja stofnana. Annars vegar er um að ræða rammasamning sem felur í sér aukna áherslu á að samnýta starfsfólk og aðstöðu og hins vegar sérsamning um stofnun rannsóknastöðvar í sameindalíffræði. Þangað verður ráðinn einn starfsmaður sem mun bæði sinna rannsóknum fyrir náttúrufræðistofnun og kennslu fyrir Háskólann.

Þegar Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar flutti í Borgir árið 2004 voru starfsmennirnir tíu. Vegna fjárhagsörðuleika var starfsmönnum fækkað og í dag eru fastráðnir starfsmenn Akureyrarsetursins átta. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, segir að stefnt sé á að efla starfsemina á Akureyri enn frekar og fjölga starfsfólki. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Nýjast