Hagnaður KEA á síðasta ári nam rúmum 913 milljónum króna, bókfært eigið fé félagsins um síðustu
áramót nam rúmlega 5,4 milljörðum króna og heildareignir voru tæpir 5,8 milljarðar. Aðalfundur KEA er haldinn í VMA í dag, laugardag.
Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA er ánægður með afkomu síðasta árs og trausta stöðu félagsins í dag.
Ítarlegt viðtal er við Halldór í Vikudegi í vikunni.
Þar kemur m.a. fram að félagsmenn í KEA eru nú tæplega 15.000 talsins og hefur þeim fjölgað um rúmlega 7.000 á undanförnum
tveimur árum. KEA-kortið hefur haft þar mikil áhrif og algjörlega slegið í gegn að sögn Halldórs. "Við erum með um 65
samstarfsaðila og kortið hefur það víðtæka útbreiðslu og virkni að aðilar utan svæðsins eru farnir leita eftir því að
komast að KEA-kortinu. Ef slík útvíkkun getur tryggt félagsmönnum meiri og betri viðskiptakjör er full ástæða til að skoða
það." Halldór segir að jafnframt séu margir félagsmenn meðvitaðir um aðra mikilvæga hlið á starfseminni, þ.e.
þátttöku þeirra í félagi sem hefur óbein áhrif á lífskjör og eignavirði á svæðinu í gegnum
fjárfestingar sínar. "Við fjárfestum í fyrirtækjum hér með það að markmiði að þau vaxi, dafni og skili arði. Eftir
því sem atvinnulífið er öflugra og atvinnuástandið betra, styrkist grunnur lífskjara á svæðinu; atvinnuöryggi fólks er
þá meira og t.a.m. fasteignir þess haldast betur í verði."
KEA lætur mæla reglulega ímynd félagsins og segir Halldór að jákvæð ímynd félagsins sé með allra mesta móti.
"Það eru yfir 90% aðspurða með jákvætt viðhorf til félagsins og mér er tjáð að fáheyrt sé að fyrirtæki
njóti jafn mikillar velvildar. Í mælingum Capacent er ekkert fyrirtæki sem skorar hærra en KEA þegar þessari spurningu er svarað. Þetta er
auðvitað mikil hvatning til okkar hjá félaginu um að halda áfram að láta gott af okkur leiða og merki um að félagið sé á
réttri leið," segir Halldór m.a. í viðtalinu í Vikudegi.