Rétt fyrir kl. fimm síðastliðna nótt var tilkynnt um eld í raðhúsi við Klettaborg á Akureyri. Íbúi þar hafði
vaknað við reykjarlykt. Við nánari athugun reyndist vera eldur í skrautkerti í stofu. Íbúinn sýndi mikið snarræði, sótti
slökkvitæki og slökkti eldinn en hringdi síðan í 112. Tjón varð óverulegt en þetta sýnir mikilvægi þess að vera
með eldvarnir í góðu lagi og bregðast rétt við.
Kertaskreytingin var keypt tilbúin og mun lögreglan láta Löggildingarstofu kanna hvort hún standist kröfur sem gerðar eru til slíkra kerta.