Slippurinn Akureyri bauð lægst í lokaendurbætur Grímseyjarferju

Slippurinn Akureyri átti langlægsta tilboð í lokaendurbætur á Grímseyjarferjunni Sæfara en tilboð í óformlegu lokuðu útboði voru opnuð nú í morgun. Slippurinn bauðst til að vinna verkið fyrir tæpar 13 milljónir króna en Skipasmíðastöð Njarðvíkur, sem átti næstlægsta tilboð í verkið bauð 22,4 milljónir króna. Anton Benjamínsson framkvæmdastjóri Slippsins sagði að í tilboði fyrirtækisins væru nokkrir fyrirvarar og skilgreiningar, auk þess sem talsverð vinna væri eftir, sem ekki væri með í þessu útboði. "Mér finnst aðrir bjóðendur hins vegar vera gríðarlega háir," sagði Anton, sem gerir sér vonir um að verkið verði unnið á Akureyri. Ráðgert er að framkvæmdir við lokaendurbætur hefjist nú í kringum miðjan janúar og er áætlaður verktími 3 vikur. Anton sagði að verkefnastaða fyrirækisins væri góð en að þetta verk yrði ágætis viðbót. Alls bárust fjögur tilboð í verkið og var það þriðja lægsta frá Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfirði, þar sem unnið hefur verið að endurbótum á Grímseyjarferjunni. Tilboðið frá Vélsmiðju Orms og Víglundar hljóðaði upp á tæpar 22,9 milljónir króna en Stálsmiðjan í Reykjavík bauðst til að vinna verkið fyrir tæpar 27 milljónir króna. Um er að ræða nokkra verkþætti svo sem að smíða dyr á stjórnborðssíðu sem verður aðalinngangur í ferjuna sem gerir hreyfihömluðum auðveldara um vik. Samskonar dyr verða settar á bakborðshliðina og verður neyðarútgangur. Þá verður skipt út um 22 fermetrum af stáli á byrðingi skipsins sem auðveldar og bætir klössun skipsins. Komið verður fyrir kælingu í efri flutningalestinni vegna fiskflutninga, og salernum verður breytt þannig að þau nýtist hreyfihömluðum á betri hátt en ella, auk nokkurra fleiri smærri verka. Vegna umræðunnar lét Vegagerðin kanna hvað myndi kosta að smíða nýtt skip í líkingu við Grímseyjarferju og var niðurstaða þeirrar könnunar að það myndi kosta að minnsta kosti 900 milljónir króna miðað við verðlag í dag.

Nýjast