Sleppa þarf allri bleikju sem veiðist í Eyjafjarðará

Einungis verður leyfð fluguveiði í Eyjafjarðará í sumar og allri veiddri bleikju verður að sleppa en taka má með sér lax og urriða, að sögn Ágústs Ásgrímssonar formanns Veiðifélags Eyjafjarðarár.

Veiði í öllum þverám verður bönnuð en á móti kemur að á fimmta svæði verður veiði leyfð fyrir hádegi í ágúst. Þó má ekki veiða framar en við Merki ofan Tjaldbakka. Þá hefur verið í gangi mikið minkaveiðiátak bætir Ágúst við. Ráðist verður í rannsókn á fiskinum í ánni í sumar með því að merkja hann, könnuð verður hegðun hans og atferli ásamt því hvernig honum reiðir almennt af í náinni framtíð. Rannsóknin verður undir stjórn Bjarna Jónssonar umdæmisstjóra veiðimálastofnunar á Norðurlandi eystra. Þessar ráðstafanir eru að sögn Ágústs gerðar til verndar fiskstofninum í ánni og einnig til að athuga hvort hin mikla efnistaka sem verið hefur neðst í ánni og við óshólma hennar hefur áhrif.

Einnig hafa menn áhyggjur af því að flóðið í Djúpadalsá undir lok árs 2006 hafi haft mjög slæm áhrif fyrir fiskinn í ánni. „Ég hef sterkan grun um að seiðabúskapurinn neðan við flóðið sé alveg í molum eftir það og við eigum eftir að súpa seiðið af því, sérstaklega á næstu 2-3 árum," sagði Ágúst. Varðandi áhrif efnistökunnar sagði Ágúst að sem dæmi mætti nefna að fyrr á árum hafi verið gríðarlega mikið um haustbleikju á svokölluðu 1. svæði (neðsta svæðið í ánni) og menn hafi oft veitt vel. Nú finnst varla bleikja á þessu svæði á haustin og hafa veiðimenn grun um að efnistakan sem þar hófst fyrir nokkrum árum hafi þar mikil áhrif.

Nýjast