Sláturtíð hafin hjá KN á Húsavík

Slátrun geita hefur aukist hin síðari ár hjá Kjarnafæði Norðlenska.
Slátrun geita hefur aukist hin síðari ár hjá Kjarnafæði Norðlenska.

Sláturtíð hófst hjá sláturhúsi Kjarnafæðis Norðlenska á Húsavík í morgun, miðvikudaginn 3. september og er gert ráð fyrir að hún standi yfir til loka október.

Sigmundur Hreiðarsson framleiðslustjóri KN á Húsavík segir að sláturfjöldi í haust sé áætlaður um 90 þúsund fjár, heldur meira en var í fyrrahaust þegar slátrað var um 85.700 fjár. „Talan hefði orðið um 81 þúsund ef við hefðum ekki fengið hluta af þeirri slátrun sem átti að fara fram á Blönduósi. Nýting á sláturhúsinu hér var á hraðri niðurleið, enda hefur fækkað um 4 til 5 % á ári á landsvísu í slátrun nokkur undanfarin ár,“ segir hann.

Um 120 manns að störfum

Vel gekk að ráða fólk til starfa en Sigmundur segir að um 120 manns séu ráðnir inn í húsið í hverri sláturtíð. Um 90% af þeim sem koma til starfa hafa komið áður og margir ár eftir ár. Starfsfólkið kemur víða að eða frá 13 til 15 þjóðlöndum. „Ferðaskrifstofan“ okkar stendur sig mjög vel þegar kemur að ráðningum á sláturhúsið og skipulagi á ferðum þessa fólks.“

Sigmundur segir kjarnastarfsfólk standa sig einkar vel, þetta sé öflugur hópur, „og með þeirri viðbót af fólki sem hingað kemur til starfa ár hvert höfum við mjög sterkt lið til að takast á við þá miklu vertíð sem sláturtíðin er.“ Einnig erum við mjög ánægð með þá verktaka, sem þjónusta okkur, og síðast en ekki síst, þá er gott samstarf við bændur einn af lykilþáttum til að þetta gangi, sem best,“ segir hann.

Nýjast