06. desember, 2007 - 11:23
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli verður opnað formlega fyrir almennig í dag, fimmtudag og verða lyftur opnar á milli kl. 17 og 19. Stefnt er svo að því að hafa skíðasvæðið opið áfram en þar eru aðstæður ágætar, að sögn Guðmundar Karls Jónssonar forstöðumanns. Hann sagði að hægt væri að renna sér við Fjarkann og einnig væri ein skíðaleið opin í Strýtu. "Það er úrkoma í veðurkortunum og kuldi og vonandi getum líka haldið áfram að framleiða snjó," sagði Guðmundur Karl. Þótt ekki hafi verið opnað fyrir almenning fyrr en nú, hafa iðkendur frá SKA stundað skíðaæfingar í Hlíðarfjalli í um mánuð og einnig hefur skíðalandsliðið æft þar við góðar aðstæður. Á morgun föstudag verður opið í Hlíðarfjalli frá kl. 16-19 og þá verður opið um helgina. Skíðasvæðið á Dalvík var opnað í gær og þar verður einnig opið áfram. Snjór hefur verið framleiddur þar síðustu vikur og eru aðstæður í Böggvisstaðarfjalli ágætar.