Skemmdarverk unnin á biðskýlum

Stórfelld skemmdarverk voru unnin á tveimur biðskýlum Strætisvagna Akureyrar við Þingvallastræti um helgina. Allar rúðurnar fimm í biðskýli við spennistöð Norðurorku voru brotnar og ein rúða í öðru biðskýli við götuna.

Stefán Baldursson framkvæmdastjóri SVA sagði að hver rúða kostaði yfir 50 þúsund krónur og því næmi heildartjónið um 330 þúsund krónum. Hann sagði að sést hefði til unglingspilta á svæðinu en að ekki hefði náðst til þeirra.

Það er ekkert nýtt að skemmdir séu unnar á biðskýlum SVA en Stefán sagði að ekki hefði áður verið unnar jafn miklar skemmdir á einu skýli og gerðist við spennistöðina. Hann hvetur bæjarbúa til að vera á verði og láta lögreglu umsvifalaust vita ef þeir verða varir við eitthvað þessu líkt. 

Nýjast