21. desember, 2007 - 10:53
Á fundi samfélags- og mannréttindaráðs í vikunni samþykkti meirihluti ráðsins að annars vegar verði gengið til viðræðna við Símey um að hún taki að sér umsjón og rekstur Menntasmiðju kvenna og hins vegar verði gengið til viðræðna við Alþjóðahús um að það taki að sér umsjón og rekstur Alþjóðastofu. Tilgangurinn með viðræðunum við Símey er að kanna möguleika á samlegð og samnýtingu þeirrar þjónustu sem hefur verið í boði á báðum stöðum. Löng reynsla er af starfi Menntasmiðju kvenna og hjá Símey hefur verið unnið mikið uppbyggingarstarf í fullorðinsfræðslu. Þá hefur Byr - starfsendurhæfing Norðurlands tekið til starfa í tengslum við Símey og þar gætu leynst góðir samlegðarmöguleikar með Menntasmiðju kvenna. Það er mat meirihluta ráðsins að með þessu geti skapast tækifæri til að efla þennan þátt í starfsemi bæjarins. Áherslur samfélags- og mannréttindaráðs í viðræðum við Símey eru að hugmyndafræðin í starfi Menntasmiðjunnar haldi sér og að tryggt sé að áfram verði í boðið uppá sambærilega menntun og leiðsögn. Alþjóðahús leitaði nýlega til Akureyrarbæjar með hugmynd um gerð þjónustusamnings um rekstur þjónustu fyrir íbúa Akureyrar af erlendum uppruna. Akureyrarbær hefur rekið starfsemi fyrir sama markhóp þ.e. Alþjóðastofu frá árinu 2002 og er það mat meirihluta samfélags- og mannréttindaráðs að formlegt samstarf við Alþjóðahús gefi tækifæri til aukinnar starfsemi og fjölbreyttari. Alþjóðahús hefur einnig leitað til annarra sveitarfélaga sem og stéttarfélaga á Norðurlandi með það að markmiði að samræma þjónustustig yfir landið og byggja upp enn öflugri þjónustu á þessu landsvæði.