Lið Akureyrar í öðrum flokki karla í handbolta lenti í öðru sæti á Íslandsmótinu eftir að hafa tapað í úrslitum á móti feykisterku liði HK frá Kópavogi.
Akureyringar lögðu FH-inga í undanúrslitum en náðu sér engan veginn á strik í úrslitaleiknum. HK menn náðu strax góðri forystu í leiknum og héldu henni til enda. Í hálfleik var staðan 14-8 fyrir HK-menn. Akureyringar náðu aðeins að rétta sinn hlut í seinni hálfleik og söxuðu á forskot HK manna, en það dugði ekki til og HK menn unnu á endanum þriggja marka sigur, 32-29.
Þetta er frábær árangur hjá strákunum og ljóst að þetta er eitthvað sem hægt verður að byggja á í framhaldinu.