Seigla á Akureyri fær norsk nýsköpunarverðlaun

Þessa vikuna stendur yfir sjávarútvegssýningin Norfishing 2008 í Þrándheimi, Noregi og er Seigla ehf á meðal þátttakenda.  Seigla ehf var eitt þriggja fyrirtækja sem valin voru úr hópi fyrirtækja fyrir tækninýjungar.  Það er skemmst frá því að segja að Seigla ehf hlaut fyrstu verðlaun fyrir þá nýjung að útbúa hraðfiskibáta með fellikili.  Verðlaunin voru veitt af norska sjávarútvegsráðherranum, Helgu Pedersen við hátiðlega athöfn um borð í hafrannsóknarskipinu G.O. Sars.  Verðlaunin eru listaverk eftir norska listamannin Karl Erik Harr, ásamt 100.000 NOK. Fellikjölurinn hefur verið í þróun hjá Seiglu í nokkur ár. Hann hefur verið settur í alla stærri báta hjá fyrirtækinu nánast frá upphafi. Þegar Seigla hóf bátasmíði, varð flótlega ljóst að kostir hraðfiskibáta við nútímaveiðar væru ótvíræðir. Þess vegna var farið í það að þróa kjöl sem hægt væri að setja niður, þegar báturinn er á veiðum og draga inn þegar báturinn er á siglingu.  Með þessu eru sameinaðir kostir hraðbáts og  báts með kjöl en með því að draga kjölinn inn, eykst hraði og viðnám minnkar sem leiðir af sér minni olíueyðslu.  Með því að setja kjölinn niður eykst stjórnhæfni bátsins, beyjuradíus minnkar, rek minnkar stórlega og starfsumhverfi starfsmanna um borð verður þægilegra. Bátarnir frá Seiglu ehf. hafa verið í boði með þennan búnað hér á Íslandi í mörg ár, en undanfarið hafa Norðmenn veitt þessu mikla athygli.  Þegar er búið að afhenda nokkra báta frá Seiglu ehf. til Noregs, nokkrir eru í smíðum og fyrirliggjandi eru samningar hjá Seiglu ehf. til Noregs. Seigla ehf hefur um árabil verið leiðandi fyrirtæki í þróun og framleiðslu hraðfiskibáta og því eru verðlaun sem þessi ánægjuleg og mikilvæg viðurkenning á vöruþróun fyrirtækisins.

Nýjast