Segir hunda valda usla í hesthúsahverfunum

Hestaeigandi í hesthúsahverfinu í Lögmannshlíð, sem ekki vildi láta nafn síns getið, hafði samband við Vikudag og vildi kvarta yfir hundaeigendum í bænum sem koma í hesthúsahverfin til að viðra hunda sína. Þeir sleppi hundunum lausum og séu dæmi um að hestar hafi fælst, knapar fallið af baki og orðið fyrir meiðslum. Þetta sé sérstaklega varasamt gagnvart tryppum í tamningu. Sjálfur sagðist þessi hestaeigandi hafa orðið fyrir því að hundur, sem verið var að viðra í hverfinu, beit í hófskeggið á þeim hesti sem hann sat. Sem betur fer í það skiptið hafi hesturinn sýnt ótrúlega stillingu. Hestaeigandinn sagði ástandið ekkert betra í hinu hestahúsahverfinu, Breiðholti, og þá mættu hestamenn, sem eiga hunda, einnig passa betur upp á þá. Lausaganga hunda væri bönnuð í hesthúsahverfunum. Því taldi hann að hundaeigendur ættu frekar að viðra hunda sína á þeim gönguleiðum þar sem ekki fari hestar um. Þeir verði aðeins að passa að verka upp skítinn eftir hundinn.

Nýjast