Samtök iðnaðarins tilkynntu í dag um svokallaða vinnustaðakennslustyrki til sex fyrirtækja, þar af tveggja í kjötiðnaði og fjögurra
í prentiðnaði. Þetta er í fyrsta skipti sem Samtök iðnaðarins veita þessa styrki. Greint var frá styrkúthlutuninni í
húsakynnum Norðlenska á Akureyri nú fyrir stundu en það fyrirtæki, ásamt Kjarnafæði á Akureyri hljóta hæstu styrki
í þessari fyrstu úthlutun. Fékk hvort fyrirtæki rösklega 1,1 milljón króna í sinn hlut. Katrín Dóra
Þorsteinsdóttir starfsmannastjóri Norðlenska tók við styrknum úr hendi Jóns Steindórs Valdimarssonar framkvæmdastjóra Samtaka
iðnaðarins.
Katrín Dóra sagði að á undanförnum árum hefði nemum í kjötiðnaði fækkað mjög. Sú ákvörðun
stjórnenda VMA í haust að bjóða á nýjan leik upp á kjötiðnaðarnám hafi verið mikilvægur þáttur í
að snúa þróuninni við. Nú eru fjórir kjötiðnaðarnemar á fyrsta námsári hjá Norðlenska, einn á
þriðja ári og einn kjötskurðarnemi er á lokaári. Samtök iðnaðarins hafa markað þá stefnu að veita árlega tíu
milljónum króna til vinnustaðakennslu í fyrirtækjum, sérstaklega í þeim greinum sem erfitt er að fá nema eða taka við nemum
í vinnustaðakennslu. Önnur fyrirtæki sem hlutu styrki eru öll í prentiðnaði, Landsprent, Árvakur, Gutenberg og Oddi. Við úthlutun styrkja
er áhersla lögð á nám í löggiltum og viðurkenndum iðn- og starfsgreinum á framhaldsskólastigi.