Samningur bæjarins og Þórs vegna Bogans enn í gildi

Á fundi íþróttaráðs Akureyrar í vikunni var fjallað um endurskoðun rekstrarsamninga íþróttafélaganna frá 2001. Tekið var fyrir erindi frá Sigfúsi Ólafi Helgasyni f.h. Íþróttafélagsins Þórs þar sem farið er fram á skilgreiningu á gildistíma viðaukasamnings sem gerður var vegna vöktunar Bogans. Íþróttaráð staðfestir að viðaukasamningur vegna vöktunar Bogans sem gerður var við gildandi rekstrarsamning milli Akureyrarbæjar og Þórs er í fullu gildi. Íþróttaráð staðfestir einnig að rekstrarfyrirkomulag Bogans verður óbreytt á meðan ekki verður um annað samið eða samningnum sagt upp. Einnig var á fundi íþróttaráðs tekið fyrir erindi frá Ástu Ásmundsdóttur formanni Léttis þar sem farið er fram á stuðning vegna reksturs reiðhallar. Íþróttaráð tekur jákvætt í erindi Léttis og telur að skoða verði aðkomu Akureyrarbæjar að föstum rekstri reiðhallarinnar sem og að styrkja starfsemi barna, unglinga og fatlaðra í húsinu. Íþróttaráð vísaði erindinu til bæjarráðs og fól deildarstjóra að skila gögnum til ráðsins í samræmi við umræður á fundinum.

Nýjast