Hólmgeir Karlsson, fyrrverandi forstöðumaður þróunar- og markaðssviðs Norðurmjólkur og áður framkvæmdastjóri
Mjólkursamlags KEA, segir á bloggsíðu sinni að samrunaferlið allt frá því að Mjólkursamsalan, Osta og Smjörsalan og
Norðurmjólk sameinuðust undir merkjum MS í ársbyrjun 2007 sé ein sorgarsaga fyrir íslenska bændur sem jafnframt eru eigendur fyrirtækisins.
Hólmgeir segir að einum allra hæfasta mjólkuriðnaðarmanni okkar, Oddgeiri Sigurjónssyni ostameistara á Akureyri, hafi verið sagt upp störfum
í gær, af tilefnislausu í skjóli flausturkenndra hagræðingaraðgerða innan MS. "Í stað þess að nýta samrunakraft
fyrirtækjanna hefur fjármunum verið sólundað með röngum fjárfestingum, illa ígrunduðum ákvörðunum og mannaráðningum
á sama tíma og markvisst þróunarstarf og markaðssókn hefur vikið eða fallið í skuggann af innri átökum æðstu
stjórnenda og ráðaleysi. Staðan sem við blasir er stórfelldur taprekstur sem fyrst og fremst tengist illa skipulögðum ferlum, röngum
fjárfestingum og yfirmönnun í yfirstjórn fyrirtækisins á suðvestur horninu ásamt því að óþörfum einingum er ekki
komið úr rekstri. Ég hef fylgst vel með þessu ferli, af hliðarlínunni, allt frá því ég skildi við iðnaðinn er
Norðurmjólk lauk sinni göngu og varð hluti af MS," segir Hólmgeir í bloggi sínu.
Hólmgeir segir fólk á Akureyri vera slegið yfir þessum furðulegu tíðindum, "og þungt hljóð í fólki sem ég
heyrði frá í mjólkurvinnslunni, enda enginn sem skildi upp né niður í þessum ákvörðunum. Þetta eru váleg
tíðindi á sama tíma og vegið er að þessari grein með þeirri ógn og veikingu á samkeppnisstöðu sem
óhjákvæmilega hlýst af auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum sem boðuð er af yfirvöldum. Nú er tími til
kominn að bændur fari að átta sig og taki á sig rögg áður en illa fer fyrir þessum verðmæta og mikilvæga rekstri, því
stéttin sem slík mun eiga nóg með að verjast harðnandi samkeppni á opnum alþjóðamarkaði með matvörur sem við erum smám
saman að verða þátttakendur í. Mér er brugðið bændanna vegna sem og vegna okkar neytenda," segir Hólmgeir. Sjá nánar
á:
http://hk.blog.is/blog/hk/entry/525819/#comments