Saga Capital Fjárfestingarbanka var í dag veittur formlegur aðgangur að kauphöllinni í Kaupmannahöfn en fyrir er bankinn aðili að kauphöllunum
á Íslandi, í Helsinki og í Stokkhólmi. Þessar kauphallir starfa saman undir nafninu OMX Nordic Exchange og eru hluti af NASDAQ OMX Group sem er stærsta
kauphallarfyrirtæki í heimi með þjónustu í sex heimsálfum og yfir 3.900 félög í viðskiptum. Saga Capital Fjárfestingarbanki
tók formlega til starfa um mitt síðasta ár. Bankinn hefur vaxið hratt og vermir nú fjórða sætið, á eftir stóru
viðskiptabönkunum þremur, í umfangi viðskipta í Kauphöll Íslands.
Saga Capital veitir þjónustu á sviði fyrirtækjaráðgjafar, útlána og verðbréfamiðlunar til fyrirtækja og fagfjárfesta
og tekur virkan þátt á verðbréfamörkuðum með fjárfestingum fyrir eigin reikning . ,,Við bjóðum Saga Capital Fjárfestingarbanka
hjartanlega velkominn til OMX Nordic Exchange. Þetta er enn einn kauphallaraðilinn sem nýtir sér sameiningu norræna markaðarins og eykur við aðild
sína", sagði Hans-Ole Jochumsen, forstjóri norrænu kauphallanna. ,,Saga Capital Fjárfestingarbanki er tíundi aðilinn sem eykur við sig með
þessum hætti og hefur því nú aðild að öllum mörkuðum Nordic Exchange".
,,Saga Capital leggur áherslu á hröð og fagleg verðbréfaviðskipti og leggur metnað sinn í að tryggja viðskiptavinum beinan aðgang að
helstu kauphöllum heims. Þetta eru ánægjuleg tímamót sem gera okkur kleift að sinna þörfum okkar viðskiptamanna jafnvel enn betur en nú
er," segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital Fjárfestingarbanka í tilkynningu frá félaginu.