SA sigraði SR 4-0 í öðrum leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí og jöfnuðu þar með metin í einvígi liðanna í 1-1. Fjölmargir áhorfendur mættu á leikinn sem fram fór í Skautahöllinni á Akureyri. Greinilegt var frá byrjun að heimamenn ætluðu að bæta fyrir slakan leik í gær, því þeir mættu gríðarlega grimmir til leiks í kvöld. Um miðbik fyrstu lotu kom fyrsta mark SA eftir nokkra pressu að marki SR og var þar að verki Steinar Grettisson eftir frábæra sendingu Jóns Gíslasonar.
SA bætti svo við öðru marki á 15. mín. þegar að varnarmaðurinn Birkir Árnason skoraði með þrumuskoti af löngu færi.
Önnur lota einkenndist af mikilli baráttu og fáum færum. Oft var nálægt því að sjóða upp úr í leiknum og var andrúmsloftið frekar þrúgað milli leikmanna liðanna. Ágætir dómarar leiksins náðu hins vegar að róa menn áður en upp úr sauð. SA bætti svo við sínu þriðja marki í leiknum undir lok lotunnar þegar markamaskínan Andri Mikaelsson skoraði eftir mikla baráttu upp við mark SR.
Þriðja lota var rólegri og virtist sem SR-ingar væru löngu búnir að gefa upp von um að ná einhverju út úr leiknum áður en hún hófst. SA voru einnig nokkuð rólegir og létu sér nægja að bæta við einu marki. Þar var að verki Sigmundur R. Sveinsson um miðja lotuna.
Staðan í einvígi liðanna er því 1-1 og fara næstu tveir leikir liðanna fram um helgina í Reykjavík.
Athygli vakti að SR notaði ekki Emil Allengard í leiknum í kvöld; Emil hefur verið búsettur í Svíþjóð alla sína ævi en á íslenska móður. Hann hefur aldrei leikið á Íslandi en æft með SR þegar hann hefur verið á landinu. Hann lék í fyrsta leik liðanna í gærkvöldi og var besti maður vallarins en mikill vafi leikur á hvort hann er löglegur með SR þar sem hann er ekki skráður í liðið að mati SA-manna. Þeir hafa þegar kært leikinn og verður forvitnilegt að sjá hvað úr verður.