Rýnihópur leggur til aukið samstarf í háskólakerfinu

Rýnihópurinn sem menntamálaráðherra skipaði telur mikilvægt að menntamálaráðuneytið beiti sér fyrir aðgerðum sem stuðla að auknu samstarfi í háskólakerfinu, eflingu á gæðamati og eftirliti og hefji endurskoðun á fjármögnun háskólanna. Einnig leggur hópurinn til áætlun um næstu skref á þeirri leið.  

Rýnihópurinn var skipaður til að leggja mat á tillögur um breytingar á háskólakerfinu og stefnumótunar- og stuðningskerfi rannsókna og nýsköpunar sem tveir hópar sérfræðinga höfðu lagt fram vorið 2009 og gera tillögur að útfærslum.

Mikilvægustu skilaboð rýnihópsins eru að nú skipti miklu máli að standa vörð um menntun og rannsóknir með framtíð þjóðarinnar í huga. Atvinnulíf og menning þjóðarinnar byggir á vel menntuðu fólki og rannsóknum og því er mikilvægt að missa ekki sjónar á mikilvægi þess að efla menntun og rannsóknir með framtíð Íslands í huga. Gott menntakerfi á öllum stigum og öflugt rannsókna- og nýsköpunarsamfélag er mikilvægur grundvöllur uppbyggingar þjóðlífsins og hvetur fólk til að finna sér starfsvettvang á Íslandi. Það er nauðsynlegur liður í þróun samfélags sem laðar að sér ungt menntað fólk og kveikir fjölbreytt atvinnulíf. Hópurinn tekur ekki efnislega afstöðu til einstakra tillagna í skýrslunum tveimur sem hann fjallaði um en telur mikilvægast að ráðuneytið beiti sér fyrir aðgerðum á eftirtöldum þremur sviðum.

Aukið samstarf í háskólakerfinu

Samstarf háskólanna og samstarf þeirra við rannsóknastofnanir, fræðasetur, náttúrustofur og aðrar stofnanir sem stunda rannsóknir og koma að æðri menntun þarf að auka. Með þessu móti má efla faglegan styrk um land allt og auðvelda háskólum og öðrum stofnunum að taka á niðurskurði í framlögum ríkisins. Í þessu samhengi þarf að athuga með skýrari verkaskiptingu háskólanna og verkefni sem þeir geta sameinast um, eins og kennslu á ýmsum sviðum, rannsóknatengt framhaldsnám, þjónustu (t.d. innritun, alþjóðaskrifstofu) og annað sem þeir hafa hag af að standa saman að og getur á sama tíma skilað hagræðingu. Meta þarf hvort fýsilegt og hagkvæmt sé að sameina einstaka háskóla og stofnanir þegar fram í sækir og auka þannig faglegt afl þeirra enn frekar, en sameiningar geta ekki verið markmið í sjálfu sér. Fagleg sjónarmið verða að vega þungt í umræðu um sameiningar og þegar ákvarðanir eru teknar.

Efling á gæðamati og eftirliti

Tryggja þarf gæði háskólakennslu og rannsókna með gæðamati og eftirliti (sbr. Lög um háskóla nr. 63/2006 og reglugerð nr. 321/2009). Gæðamat og eftirlit með gæðum þarf að ná til kennslu og rannsókna, byggja á alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum og vera í höndum óháðra aðila. Meta þarf með samræmdum hætti gæði kennslu hjá háskólum og stofnunum sem sinna kennslu á háskólastigi og gæði rannsókna hjá háskólum, rannsóknastofnunum og öðrum sem fá opinbert fé til rannsókna. Gæðamat þarf að byggja á alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum en nauðsynlegt er að taka tillit til mismunandi hefða fræðasviðanna. Fjármögnun rannsókna og kennslu þarf að miða við mat á árangri og gæðum. Sækja má fyrirmyndir til annarra landa. Stofnanir þurfa einnig eigið innra eftirlit með kennslu og rannsóknum þegar bæta þarf starfsemina. Mat á gæðum kennslu og rannsókna og eðlileg eftirfylgni eru réttindi háskólanema og mikilvægir fyrir samkeppnissjóði sem veita rannsóknafé. Gæði auka einnig möguleika stofnana til að sækja erlent fjármagn og bæta starfsskilyrði þeirra.

Endurskoðun á fjármögnun háskólanna

Mikilvægt er að núverandi kerfi, þar sem háskólarnir eru reknir undir mismunandi rekstrarformum, eru fjármagnaðir á ólíkum forsendum og hafa mismunandi möguleika til að afla sér tekna, verði endurskoðað. Búa þarf háskólunum ramma með gagnsæi í fjárveitingum til kennslu, rannsókna og annarra þátta og sömu reglur verða að gilda fyrir alla háskólana. Fjárveitingar þurfa að vera í samræmi við umfang starfseminnar, gæði hennar og árangur. Einnig er mikilvægt að háskólarnir hafi allir sömu möguleika á að afla sértekna. Fjármögnun háskólanna má ekki vera þess eðlis að hún torveldi samstarf milli háskóla og milli háskóla og rannsóknastofnana, heldur hvetji til þess á sama tíma og hún hvetur til heilbrigðrar samkeppni milli þeirra.

Nýjast