Ríflega helmingur Akureyringa ánægður með hvernig staðið er að snjómokstri

Ríflega helmingur bæjarbúa, eða 51,6%, er ánægður með hvernig Akureyrarbær stendur að snjómokstri í bænum en um 32% bæjarbúa er óánægður, samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Akureyrarbæ. Rúmlega 38% aðspurðra sagði bæinn sinna snjómokstri frekar vel og rúmlega 13% mjög vel. Rúmlega 21% aðspurðra sagði bæinn sinna snjómokstri frekar illa og rúmlega 11% mjög illa. Um 16% aðspurðra telja að bærinn sinni snjómokstri hvorki vel eða illa. Tæplega 46% bæjarbúa telja að Akureyrarbær sinni hálkuvörnum á götum bæjarins frekar vel eða mjög vel og tæplega 43% telja að bærinn standi sig frekar illa eða mjög illa. Um 20% aðspurða sögðu að bærinn sinnti hálkuvörnum hvorki vel að eða illa. Þegar spurt var um hvort Akureyrarbær sinnti hálkuvörnum á gangstéttum í bænum vel eða illa, sögðu um 37% að bærinn sinnti því frekar vel eða vel en tæplega 43% að bærinn sinnti því frekar illa eða mjög illa.

Mikill meirihluti aðspurðra telur að bærinn eigi að nota malarefni eða sand til hálkuvarna á götur og gangstéttir, eða 78,3%. Tæplega 17% vilja að notað verði salt blandað með malarefni, 3,2% telja að nota eigi óblandað salt og 1,8% vill engar hálkuvarnir. Könnunin varð gerð á tímabilinu 26. mars til 7. apríl sl. og var um að ræða síma- og netkönnun. Úrtakið var 1029 manns á Akureyri, 16-75 ára, handhófsvalið úr þjóðskrá og úr viðhorfshópi Capacent Gallup. Svarhlutfall var 58,8%.

Nýjast