Stjórn Norðlenska staðfesti ársreikning félagsins á fundi í vikunni. Þar kom fram að afkoma Norðlenska á liðnu ári væri umfram áætlanir. Stjórn félagsins vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til framleiðenda og starfsfólks fyrir vel unnin störf og hlut þess í bættri afkomu félagsins. Hagnaður Norðlenska fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) var 735,0 milljónir króna árið 2007 samanborið við 268,7 milljónir króna árið 2006. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsgjalda var hagnaður af rekstri félagsins 505,8 milljónir króna. Þar af var hagnaður af sölu fasteigna 455,8 milljónir. Veltufé frá rekstri var 274,7 milljónir árið 2007 samanborið við 271,1 milljón króna árið 2006. Vörusala á innanlandsmarkaði nam 3.116 milljónum og jókst um 224 milljónir króna milli ára. Hins vegar dróst útflutningur saman milli ára sem nemur 32 milljónum króna. Launagreiðslur Norðlenska á árinu 2007 - laun og launatengd gjöld - námu 701 milljón króna og jukust um 47 milljónir milli ára.
Á árinu 2007 urðu miklar breytingar á eignarhaldi Norðlenska. Búsæld, framleiðslufélag bænda, eignaðist félagið að fullu með kaupum á eignarhlutum KEA, Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga, Akureyrarbæjar og Norðurþings. Heildarfjárfesting Búsældar vegna þessara kaupa nam 568 milljónum króna. Jafnframt var fasteign Norðlenska á Akureyri seld til fasteignafélagsins Miðpunkts. Stefnt er að því að aðalfundur Norðlenska fyrir árið 2007 verði 18. mars nk.. Í stjórn félagsins eru Jón Benediktsson, bóndi á Auðnum, formaður, Ingvi Stefánsson, bóndi í Teigi, varaformaður, Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli, Geir Árdal, bóndi í Dæli, og Auður Finnbogadóttir, viðskiptafræðingur í Garðabæ.