Aðalfundur Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) var haldinn á Hótel KEA, nýlega. Tæplega 120 manns sóttu fundinn og eru mörg ár síðan svo fjölmennur fundur hefur verið haldinn hjá félaginu. Rekstrarafkoma félagsins á árinu var mjög góð en alls nam hagnaðurinn 37,8 milljónum króna. Allir sjóðir félagsins voru reknir með hagnaði. Eiginfjárstaða félagsins er mjög sterk og nam eigið fé félagsins um síðustu áramót 295,8 milljónum króna. Í árslok voru fullgildir félagsmenn 1.614; 634 karlar og 980 konur. Þar af eru 314 gjaldfrjálsir en það eru starfandi félagsmenn 67 ára og eldri svo og lífeyrisþegar.
Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, formaður FVSA, kynnti skýrslu stjórnar. Í máli hennar kom m.a. fram að atvinnuleysi á félagssvæðinu hefði verið minna en árin á undan. Í apríl 2007 voru 38 félagsmenn á atvinnuleysisskrá en voru 49 á sama tíma árið 2006. Í desember sl. voru 37 félagsmenn á atvinnuleysisskrá. Úlfhildur kom einnig inn á það að í fyrra bættist félaginu liðsauki frá Siglufirði þegar félagsmenn í Verkalýðsfélaginu Vöku samþykktu að hætta starfsemi félagsins og ganga í viðkomandi stéttarfélög á Akureyri. Milli 40 og 50 félagar í verslunarmannadeild Vöku urðu því félagsmenn FVSA um síðustu áramót. Úlfhildur sagði einnig frá fundaherferð sem félagið gekkst fyrir í samvinnu við fyrirtæki Péturs Guðjónssonar, GCG. Haldnir voru 11 fundir og var tilhögunin þannig að fólk var valið af handahófi af félagaskránni en reynt að passa upp á að félagsmenn kæmu frá sem flestum starfsgreinum eða vinnustöðum. Hver fundur tók einn og hálfan tíma og voru yfirleitt um 15 til 20 á hverjum fundi. Stjórnarmenn og starfsfólk félagsins skiptust á að vera á fundunum. Samtals tóku um 180 manns þátt í þessum fundum og er það samdóma álit allra að þetta hafi verið þarft framtak. Margar ábendingar komu fram sem teknar hafa verið til greina varðandi þjónustu félagsins, svo og innlegg í kjaramálin.
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, formaður Landssambands Íslenskra verslunarmanna (LÍV), var gestur aðalfundar félagsins og kynnti hún nýgerðan kjarasamning LÍV við Samtök atvinnulífsins og svaraði fyrirspurnum.
Aðeins einn listi barst í sambandi við kjör í stjórn félagsins og fulltrúaráð. Einnig barst aðeins einn listi varðandi kjör í stjórn sjúkrasjóðs félagsins. Stjórn félagsins skipa: Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, formaður FVSA; Einar Hjartarson Eimskip; Friðbjörg Jóhannsdóttir, Samkaupum Dalvík; Eiður Stefánsson, Flugfélagi Íslands og Svavar Hannesson, Verði-Íslandstryggingu. Í varastjórn eru Elísabet Hallgrímsdóttir, Capacent; Hildur Tryggvadóttir, Húsasmiðjunni Lónsbakka og Margrét Guðmundsdóttir Eymundsson.