Ráðist verður í endurbætur á Illugastaðavegi í Fnjóskadal

Vegagerðin fyrirhugar að endurbyggja um 9,4 km langan vegarkafla Illugastaðavegar sem hefst við slitlagsenda sunnan vegamóta Vaglaskógarvegar og endar skammt sunnan Illugastaðakirkjuvegar í Fnjóskadal. Endurbæturnar miða að því að styrkja núverandi veg og leggja á hann bundið slitlag. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit og liggur um lönd jarðanna Veturliðastaða/Grænuhlíðar, Steinkirkju, Brúnagerðis, Fjósatungu, Kotungsstaða (4 sumarhús) og Illugastaða. Framkvæmdin telst ekki matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin er í samræmi við markmið samgönguáætlunar um að auka umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur á svæðinu. Fjárveiting fyrir framkvæmdinni, 70 milljónir króna, er á vegáætlun fyrir árið 2009. Henni hefur verið flýtt til ársins 2008. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í sumar eða haust og þeim verði að fullu lokið 1. júlí 2009.

Einstaka frístundahús er á jörðunum meðfram framkvæmdasvæðinu auk frístundahúsabyggða í Lundsskógi og Þórðarstaðaskógi. Þá er á Illugastöðum orlofshúsahverfi með um 30-40 orlofshúsum. Þar er einnig þjónustumiðstöð með verslun og sundlaug og aðstaða fyrir ýmiss konar félagsstarfsemi og samkomuhald. Í tengslum við frístundahúsahverfin í nágrenninu hefur umferð á svæðinu aukist. Meðalumferð á veginum árið 2006 var 58 bílar/dag og á sumardegi 90 bílar/dag. Framreiknuð meðalumferð árið 2026, 20 árum seinna, er 94 bílar/dag. Framreiknuð meðalumferð á sumardegi er 146 bílar/dag.

Nýjast