Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað nefnd til ráðuneytis um hvernig best megi standa að og
greiða fyrir þróun heimavinnslu og sölu afurða hjá bændum. Nefndinni er ætlað að hafa náið samráð við stjórn
Beint frá býli - Félags heimavinnsluaðila, sem tók til starfa á hlaupársdag. Nefndina skipa: Jón Gunnarsson,
alþingismaður og formaður nefndarinnar, Guðmundur H. Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Matís ohf., Ólöf Hallgrímsdóttir bóndi,
Vogum í Mývatnssveit, Sigurður Jóhannesson, frkvstj. SAH Afurða, Blönduósi og Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður
matvælaöryggis og neytendamála hjá Matvælastofnun.
Ráðherra segir að glöggt megi merkja að áhugi bænda fyrir heimavinnslu afurða aukist hratt um þessar mundir. Þarna felist vaxtarbroddur sem vert
sé að hlúa að, því hvers kyns nýsköpun af þessu tagi geti orðið greininni lyftistöng. Nefndin eigi að liðka fyrir þessu
og stuðla að árangursríku samstarfi hins opinbera og hagsmunaaðilanna.