18. febrúar, 2008 - 17:19
Loftræsisamstæðurnar tvær sem ætlaðar eru til að hita upp fjölnota íþróttahúsið Bogann koma til landsins 26. febrúar nk.
og þá verður strax hafist handa við að setja þær upp í húsinu, að sögn Guðríðar Friðriksdóttur,
framkvæmdastjóra Fasteigna Akureyrarbæjar. Samkvæmt mjög einfaldaðari lýsingu á loftræsikerfinu mun önnur samstæðan ná
í loft utandyra, hita það og blása því inn í húsið. Þá tekur hin samstæðan við að dreifa úr loftinu inni
í húsinu. Ætlunin er að með þessu verði hitinn í Boganum um 8-10 gráður en meginmunurinn verður sá að loftið verður ekki
jafn rakt og það er nú í húsinu.
Hinn mikli raki í loftinu í Boganum er aðal orsakavaldur þess að fólki finnst mjög kalt þar. Guðríður sagðist ekki eiga von á
að loka þurfi húsinu á meðan framkvæmdir standa yfir en þeim ætti að vera lokið í vor. Vikudagur sagði frá því
í haust að loftræsisamstæðurnar ættu að vera komnar í gagnið um síðustu áramót. Guðríður sagði að
verkið hafi tafist af óviðráðanlegum orsökum en nú sjái fyrir endann á því.