Pólitískt kjarkleysi meirihlutans á Akureyri að mati VG

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Akureyri lýsir yfir miklum vonbrigðum með að tillaga bæjarfulltrúa Vinstri -grænna um að skora ætti á ríkisstjórn Íslands að fresta svokölluðu matvælafrumvarpi fékkst hvorki afgreidd á bæjarstjórnarfundi né í bæjarráði nú í vikunni. Ákveðið var að fresta málinu til næsta bæjarráðsfundar. Slík frestun lýsir stórkostlegum vandræðagangi meirihlutans í þessu máli og ber vott um pólitískt kjarkleysi, segir í fréttatilkynningu frá VG. Tillagan kvað á um að það væri „algjört lágmark að fresta málinu um sinn til að gefa hagsmunaaðilum í greininni og ríkisstjórninni meiri tími til að gera ráðstafanir svo að hægt sé að standa vörð um íslenska matvælaframleiðslu og landbúnað." Henni fylgdi líka ítarleg greinargerð.

Í ljósi þess að forystufólk matreiðslumanna, matvælaframleiðenda og bænda á Akureyri og í nágrenni hafa óskað eftir því að matvælafrumvarpinu verði slegið á frest og að enga nauðsyn beri til að samþykkja það fyrr en árið 2009 töldu bæjarfulltrúar VG að málið yrði auðsótt. Matvælaframleiðsla við Akureyri og Eyjafjörð er ein stærsta atvinnugreinin á svæðinu og því ljóst að gríðarmiklir hagsmunir eru í húfi fyrir bæjarfélagið.

Einnig hafa fulltrúar allra flokka á svæðum sem eiga mikið í húfi í matvælaframleiðslu nú þegar samþykkt tillögur þar sem hvatt er til frestunar. Má í þessu samabndi nefna m.a. Húnaþing Vestra, Norðurþing, Blönduósbæ, Húnavatnshreppur, Borgarbyggð, Skagafjörður og Vopnafjarðarhrepp. Tillögur þessar voru samþykktar skilyrðislaust af fulltrúum allra flokka. Sveitarstjórnarmenn á þessum svæðum gera sér betur grein fyrir því hvað er í húfi en bæjarfulltrúar meirihlutans á Akureyri.

Til viðbótar má nefna að bæjarstjóri Akureyrar, Sigrún Björk Jakobsdóttir, skoraði á ráðherra og þingmenn að fresta málinu og ná um það betri sátt á opnum fundi með forsytufólki Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þann 13. maí. Þá var hún, eða væntanlega einhver annar fulltrúi meirihlutans, aðili að ályktun stjórnar Eyþings um sama efni.

Í ljós alls þessa er ótrúlegt að meirihluti bæjarfulltrúa á Akureyri ákvað að standa ekki skilyrðislaust með þessari mikilvægu atvinnugrein. Ekki er skýrt á hvaða forsendum það er gert því eins og bæjarfulltrúum er fullkunnugt er málið til meðferðar á þessari stundu hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis en áætluð þinglok eru 29. maí.

Ályktun frá stærsta sveitarfélagi á landsbyggðinni hefði væntanlega haft mikið vægi gagnvart nefndinni.  Að lokum er rétt að hnykkja á því að í niðurlagi greinagerðar bæjarfulltrúa VG sem fylgdi tillögunni segir: Bæjarstjórn Akureyrar á möguleika á að standa með þeim aðilum sem lýst hafa áhyggjum yfir frumvarpi ríkisstjórnarinnar með því að fara fram á við stjórnina að hún fresti afgreiðslu frumvarpsins. Það væri algjört ábyrgðarleysi af hálfu bæjarfulltrúa ef þeir leggjast ekki á árar með einni mikilvægustu atvinnugrein svæðisins.

Ástæða er til að staldra við og spyrja hvers vegna bæjarfulltrúar meirihlutans gátu ekki tekið undir sanngjarna tillögu Vg? Vart verður því trúað að ástæðan sé að bæjarfulltrúar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks telji sig hafa frekari skyldum að gegna við samflokksmenn sína í ríkisstjórn frekar en íbúa Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins, hagsmuni landbúnaðar- og matvælavinnslu í landinu og matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar.  

Nýjast