Kristján Möller samgönguráðherra gerir sér vonir um að framkvæmdir við lengingu Akureyrarflugvallar verði boðnar út fljótlega og
að þeim verði lokið í lok september nk. Hann sagði að menn hefðu hins vegar nokkrar áhyggjur af því hvort niðurstaða
Skipulagsstofnunar verði sú að framkvæmdin þurfi í umhverfismat. Komi til þess munu framkvæmdir tefjast. Þetta kom fram á opnum
stjórnmálafundi Samfylkingarinnar á Hótel KEA fyrr í kvöld.
Samgönguráðherra sagðist mjög stoltur yfir því að hafa átt þátt í því í sumar að fá það
samþykkt í ríkisstjórn að lenging Akureyrarflugvallar var sett í forgang. "Þetta er framkvæmd upp á 1,3 milljarða króna, með
tækjum og tækjabúnaði sem á að endurnýja og setja upp og ég vona að útboð fari fram á næstu vikum. Ég fylgist hins
vegar grannt með því sem er að gerast í skipulagsmálum og nú bíðum við öll eftir úrskurði Skipulagsstofnunar og nögum
neglurnar, hvort verkið þarf í umhverfismat eða ekki." Kristján sagði að vel hefði verið staðið að öllum undirbúningi og
þá hefði jafnframt komið fram að flugvallarsvæðið, þar með talið það svæði sem færi undir lengingu brautarinnar til
suðurs um 460 metra, sé búið að vera skilgreint flugvallarsvæði í yfir 50 ár. Hann gerir sér því vonir um að ekki komi til
tafa á framkvæmdum vegna þess að verkið þurfi í umhverfismat. "Eftir því sem ég best veit er svo byrjað að vinna að
undirbúningi að hönnun og útfærslu á stækkun flugstöðvarinnar sem yrði þá næsta verkefni að ráðast í."