Óviðunandi ástand ríkir í flutningskerfi Landsnets

Stjórn Norðurorku hf. hefur sent frá sér ályktun sem samþykkt var á fundi í dag, þar sem fram kemur að það ástand sem ríkir í flutningskerfi Landsnets sé með öllu óviðunandi fyrir landsmenn alla. Nauðsynlegt sé að Byggðalína verði styrkt hið fyrsta þannig að hægt sé að flytja mun meiri raforku um hana en nú er. Að undanförnu hafa í fjölmiðlum verið fluttar fréttir um bilanir í Sultartangastöð og vegna þessara bilana hefur Landsvirkjun sent raforkufyrirtækjum bréf um skerðingu á ótryggðu rafmagni til almenningsveitna og afgangsorku til stóriðju á Suður- og Vesturlandi. Meginástæður þessara skerðinga eru, auk bilana, takmarkanir á flutningsgetu Landsnets, sem hamla flutningi á orku annarsstaðar af landinu til þessara svæða. Áðurnefndar bilanir í Sultartangastöð Landsvirkjunar sýna glöggt að slík styrking kæmi ekki bara þeim svæðum sem nú búa við algerlega óviðunandi flutningsgetu, svo sem Norður- og Austurlandi, til góða heldur einnig Suðvestur- og Vesturlandi. Það er því mat stjórnar Norðurorku hf. að óhjákvæmilegt sé að nú þegar verði ráðist í styrkingu á kerfi Landsnets og fjármunir til þess verks komi úr ríkissjóði. Hér er um að ræða sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna enda ber að líta á flutningskerfi raforku á sama hátt og þjóðvegi, hafnir og flugvelli landsins.

Nýjast