Öruggur sigur Akureyrar á Aftureldingu

Akureyri vann í dag Aftureldingu í N1-deild karla í handbolta í leik sem fram fór í KA-heimilinu. Heimamenn spiluðu ekki sinn besta leik en sem betur fer fyrir þá var lið Aftureldingar ekki af þeim styrkleika að þeim yrði virkilega ógnað.

Fyrri hálfleikinn byrjaði Akureyri mun betur og hafði 12-4 forystu eftir um 20 mínútna leik. Jónatan Magnússon hafði þá farið hamförum og skorað 8 mörk, þar af fjögur úr vítum.

Flestir áttu von á því að leikurinn yrði Akureyri mjög auðveldur eftir þessa byrjun en annað kom þó á daginn. Síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiks og fyrstu 12 mínútur síðari hálfleiks skoraði Akureyri ekki samtals nema eitt mark og það var Sveinbjörn Pétursson markvörður og besti maður liðsins ásamt Jónatan sem skoraði það með skoti yfir endilangan völlinn. Afturelding skoraði hins vegar 8 mörk á þessum leikkafla og staðan því 13-12 þegar um 18 mínútur voru til leiksloka.

Leikmenn Akureyrar tóku hins vegar loksins við sér aftur eftir þennan slaka kafla og náðu aftur fjögurra marka forystu 20-16 þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Á lokakaflanum var sigur Akureyrar í raun aldrei í hættu, Afturelding náði tvívegis að minnka muninn í tvö mörk en heimamenn hleyptu þeim aldrei nær en það. Lokatölur urðu 25-22.

Akureyri hefur oft spilað betur en hið jákvæða er að liðið virtist allan tímann hafa sterk tök á leiknum. Varnarleikur liðsins var sterkur með Sveinbjörn í stuði fyrir aftan. Á hinum áðurnefnda slæma leikkafla liðsins var sóknarleikurinn mjög slakur en sem betur fer fyrir Akureyri náðu þeir tökum á honum áður en það var um seinan.

Mörk Akureyrar: Jónatan Magnússon 10, Einar Logi Friðjónsson 5, Andri Snær Stefánsson 3, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Goran Gusic 1, Oddur Gretarsson 1, Magnús Stefánsson 1, Sveinbjörn Pétursson 1.

Einnig er fjallað um leikinn í Vikudegi nk. fimmtudag og þá kemur í ljós hvað Jónatan Magnússyni fannst um leik sinna manna.

Nýjast