Rúnar Þór segir að þessa dagana bíði Nökkvamenn eftir að bæjarstjórn fjalli um framkvæmdaáætlun klúbbsins fyrir nýtt afhafnasvæði á Leirunni sem komi til með að gjörbreyta öllu bátalífi á Pollinum. "Aðstaðan er ekki eingöngu hugsuð fyrir klúbbinn einan, heldur alla þá sem hafa gaman af allra handa bátasporti, fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu og annarrar þjónustu sem tengist bátalífi og fyrirhuguð baðströnd (Ylströnd?) yrði örugglega vinsæl hjá barnafjölskyldum. Núna er tækifærið því á næsta ári verður hafist handa við Vaðlaheiðargöngin og mikið og gott efni leggst til sem væri tilvalið til uppfyllingar á Leirunni. Við siglingamenn höfum bent á það til fjölda ára að aðstæður til siglinga eru mjög góðar á Pollinum og út með firði frá nátúrunnar hendi. Það er komin tími á uppbyggingu við sjóinn og aðgengi bæjarbúa og annarra að þessari útivistarperlu."
Nökkvi hefur verið lang öflugasti siglingaklúbbur landsins í barna- og unglingastarfi sl. ár. Rúnar Þór segir að það sé ekki aðstaða klúbbsins sem sé að skila þeim árangri heldur staðsetning hans og ótrúlega mikil vinna stjórnar og nokkurra foreldra. "Við höfum lýst yfir áhuga okkar á að hér verið sett á stofn „Siglingamiðstöð Íslands" samhliða uppbyggingu nýrrar aðstöðu fyrir klúbbinn og höfum óskað eftir aðstoð íþróttaráðs bæjarins við að koma því í gegn og vonum að á næstu árum rísi hér aðstaða sem yrði einstök á landinu. Það er allt í lagi að geta þess að íþróttaráð Reykjavíkur hefur rekið siglingaaðstöðuna Siglunes í Nauthólsvík í 40 ár. Nú eru á borðinu hjá þeim teikningar að nýrri 1000 m2 siglinga- og sjósportmiðstöð sem hefja á framkvæmdir við fljótlega. Það er alveg ljóst að aðkoma Akureyrarbæjar að framtíðar uppbyggingu Nökkva verður að vera myndarleg ef þetta á að verða að einhverju sem virkilega skiptir máli fyrir bæjarfélagið. Þessar litlu fjárhæðir sem klúbburinn hefur fengið sl. ár og aðstaðan eins og hún er núna er ekki til mikils sóma. Stjórn Nökkva vonar að með góðri samvinnu klúbbsins og bæjarins verði hægt að hefja mikla og góða uppbyggingu fyrir Nökkva á Leirunni," sagði Rúnar Þór.