Nýr kirkjugarður í Naustaborgum?

Forsvarsmenn Kirkjagarða Akureyrar kynntu nýverið fyrir skipulagsnefnd og bæjarstjóra hugmyndir um nýtt svæði fyrir kirkjugarð í Naustaborgum. Þarna er um að ræða svæði sem er nánar tiltekið ofan við byggðina í Naustahverfi milli tjaldsvæðisins að Hömrum og golfvallarins. „Við höfum verið að þrýsta á skipulagsyfirvöld um að ákveða hvar framtíðarsvæði okkar eigi að vera þegar núverandi kirkjugarður klárast," segir Smári Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar. Smári segir að í síðasta aðalskipulagi bæjarins frá árinu 2005 hafi verið gert ráð fyrir því að nýr garður verði alveg í jaðri bæjarmarkanna ofarlega við Síðuhverfi, "en okkur hugnast betur að vera í Naustaborgum. Við viljum helst vera hér á suðurbrekkunni þannig að við getum nýtt þá aðstöðu sem nú er þegar fyrir hendi hér við núverandi kirkjugarð." Að sögn Smára er hugmyndin að nýr kirkjugarður sé útivistarsvæði sem sé fallegt og rólegt. „Það koma fleiri lifandi en látnir í kirkjugarð, kirkjugarðurinn hér er eitt fjölsóttasta útivistarsvæði bæjarins."

Nánar er fjallað um þetta mál í Vikudegi.

Nýjast