05. febrúar, 2008 - 18:39
"Það hefur verið vinsælt hjá þeim sem gagnrýna verð á landbúnaðarvörum að bera saman verð til neytenda hér á
landi og annarsstaðar í veröldinni. Nú hafa landbúnaðarvörur hækkað mikið á heimsmarkaði, sem gerir það að verkum að
verðmismunur búvöru hér er minni en á mörgum öðrum vöruflokkum. Við getum hæglega rökstutt að flestar búvörur geti
hækkað nokkuð í verði. Nýmjólk er t.d. óeðlilega ódýr ef miðað er við aðrar drykkjarvörur. Verum
óhrædd við að halda fram gæðum okkar framleiðslu og eðlilegt sé að góðar vörur séu frekar dýrar," segir Sigurgeir
Hreinsson formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar í hugvekju á vefsíðu Búgarðs.
Sigurgeir nefnir einnig að á undanförnum árum hafi verið miklar framkvæmdir og fjárfestingar hjá bændum, sem geri það að verkum
að hinir geysiháu vextir sem eru hér á landi hafi mikil áhrif á afkomu búanna. "Ef litið er til all margra liðinna ára er umtalsverður
munur á, hvað hagstæðara hefur verið að taka lán í erlendum myntum heldur en hinni íslensku krónu með þeim verðbótum sem
því fylgja. Ýmsir aðrir kostnaðarliðir búrekstrar hafa hækkað mikið á liðnum mánuðum og eru enn á stöðugri
uppleið svo sem kjarnfóður og vörur unnar úr olíu. Ástæða hækkunarinnar á kjarnfóðri er geysileg hækkun á allri
kornvöru á heimsmarkaði, en lítið er talað um að á seinustu mánuðum hefur fiskbeina- og loðnumjöl lækkað í verði.
Einnig eru fram komnar ógnvænlegar hækkanir á áburði. Það er umhugsunar vert að söluaðilar boða umtalsvert meiri hækkanir heldur
en raunin er í nágrannalöndum okkar. Það hlýtur að vera nauðsynlegra en nokkru sinni að vanda áburðarpöntun og dreifingu og nýta
ráðunauta til leiðbeininga," segir Sigurgeir ennfremur.