Ný útvarpsstöð á Akureyri sendir út á netinu

ClubVOICE er heiti nýrrar útvarpsstöðvar á Akureyri. Hún er þó ekki send út þráðlaust heldur er hún aðeins send út á netinu. Eins og nafnið gefur til kynna heyrist einungis danstónlist á stöðinni, enda sögð mikil vöntun á útvarpsstöð sem spilar einungis þá tegund tónlistar. Útvarpsstöðin er hliðarverkefni útvarpsstöðvarinnar VOICE 987, sem hefur verið í gangi á Akureyri á annað ár. "Okkur hefur lengi langað að opna netútvarp af þessu tagi, og reyndar hefur það verið ætlun okkar í marga mánuði. Núna er VOICE 987 orðin 600 daga gömul og ekki seinna vænna en að stækka aðeins við sig," segir Árni Már Valmundarson, dagskrárstjóri VOICE 987. "Það eina sem þarf að hafa er nettenging og tölva og þá er hægt að hlusta hvar sem viðkomandi er staddur í heiminum." Einnig er hægt að hlusta á VOICE 987 á netinu, í bestu mögulegu gæðum, allan sólarhringinn. Hægt er að hlusta á báðar stöðvarnar á http://www.voice.is/. ClubVOICE fer í loftið í kvöld, föstudaginn 1. febrúar,  klukkan 18.00 og er eina dans netstöðin á Íslandi.

Nýjast