Tvær athafnakonur, Dóróthea Jónsdóttir og Jónína Hjaltadóttir, hafa tekið húsnæði við Strandgötu á leigu,
þar sem veitingastaðurinn Oddvitinn var rekinn til margra ára. Engin starfsemi hefur þó verið í húsinu um hríð. Að sögn
Dórótheu ætla þær stöllur að opna þjónustumiðstöð fyrir skemmtiferðaskip yfir sumartímann en yfir
vetrarmánuðina er hugmyndin að vera þar með menningartengda starfsemi og útleigu á þeim tveimur sölum sem eru í húsinu.
"Við erum að springa úr hugmyndum og höfum verið að skoða hvernig starfsemi hentar best í húsið." Tveir salir eru í húsinu sem er
samtals um 760 fermetrar að stærð og segir Dóróthea að skortur hafi verið á sölum til útleigu í bænum. Hún var í
forsvari fyrir handverkshátíðina á Hrafnagili sl. tvö ár og hefur hug á að tengja handverk þjónustumiðstöðinni og einnig
kynningu á íslenskum mat og matargerð. Framundan er vinna við málun og frekara viðhald en Dóróthea sagði stefnt að því hefja
útleigu á sölum staðarins strax í næsta mánuði.