Ný álma Sjúkrahússins á Akureyri tekin í notkun og ný kapella vígð

Ný álma Sjúkrahússins á Akureyri var formlega tekin í notkun í dag, á ársfundi sjúkrahússins. Þrettán ár eru síðan hafist var handa við að byggja álmuna. Nýja álman mun m.a. hýsa starfsemi barna- og unglingageðdeildar, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sjúkraflutningaskólann, móttöku fyrir sykursjúka, skrifstofur sjúkrahússins og kapellu sem vígð var í dag. Það var séra Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup sem vígði kapelluna. Valgerður Valgarðsdóttir djákni og séra Guðrún Eggertsdóttir sjúkrahúsprestur sögðu að þessi nýja kapella breytti miklu fyrir starfsemina. Einnig voru teknar í notkun nýjar skrifstofur djákna og prests, sem og aðstaða fyrir trúarlega þjónustu. Valgerður sagði að nýja kapellan hefði mikið að segja fyrir sjúkrahúsið, skjólstæðinga og tengsl við slysadeild.  "Hér fara fram athafnir, bæði skírnir, kveðjustundir og aðrar athafnir." Guðrún tók undir með Valgerði og sagði að það væri alveg yndislegt að fá þessa aðstöðu í nýju kapellunni, "bæði fyrir okkur starfsfólk, sjúklinga og aðstandendur. Þetta er rými sem alltaf er opið og ekki aðeins fyrir helgiathafnir, heldur er þetta ætlað líka sem athvarf í erli dagsins fyrir þá sem hingað vilja leita."

Nýjast