08. febrúar, 2008 - 18:20
Nægt framboð virðist vera á atvinnumarkaði um þessar mundir og atvinnuástand með ágætum. Blikur eru hins vegar á lofti, þegar
kemur fram á vorið taka gildi uppsagnir í fiskvinnslu víða um fjórðunginn. Helena Karlsdóttir framkvæmdastjóri Vinnumálastofnunar
Norðurlands eystra segir að óvenju fáir séu nú skráðir án atvinnu á svæði stofnunarinnar miðað við
árstíma. „Það virðist vera sem nóg sé að gera um þessar mundir, það vantar fólk til starfa hér og þar,
hvergi marga, en víða vantar einn og einn eða nokkra starfsmenn," segir Helena.
Nægt framboð sé því af atvinnu nú í upphafi febrúarmánaðar, en helst að það vanti fólk til starfa. Þó
svo að atvinnuástand sé nú með besta móti segir Helena að brugðið geti til beggja vona þegar kemur fram á vorið. Þá
taki gildi uppsagnir í fiskvinnslu og megi búast við að fjöldi fólks standi þá uppi án atvinnu. „Áhrif uppsagnanna eru ekki
komin fram enn, þau skella á okkur á vormánuðum, þannig að ekki er gott að segja hvernig ástandið verður nákvæmlega
þegar að uppsagnir taka gildi," segir Helena.