Mun meiri nýliðun hjá málmiðnaðarmönnum en áður

Nýliðun í Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri var meiri á liðnu ári en „verið hefur í háa herrans tíð," eins og Hákon Hákonarson formaður þess orðar það. Hún nemur um 10% milli ára og hefur eftirspurn eftir starfskröftum málmiðnaðarmanna ekki verið meiri í 10 til 15 ár, að sögn formannsins. Hákon segir að fyrirtæki í greininni sýni almennt góða afkomu og mikið sé að gera á flestum vígstöðum, það sé afar ánægjulegt að undangengnu tímabili sem einkenndist af eins konar kreppu í greininni. „Það er mikil eftirspurn eftir málmiðnaðarmönnum um þessar mundir og ekkert atvinnuleysi í félaginu, ekki einn einasti maður á atvinnuleysisskrá hjá okkur og það er gleðilegt," segir Hákon. Hann segir félagið því sigla markvisst upp á við og muni af krafti taka þátt í atvinnulífinu í komandi árum, „það er ekki annað hægt en vera bjartsýnn, það er ekki útlit fyrir annað en að bjart sé framundan hvað okkur varðar." Hákon nefnir að nú sé á ný hafin kennsla í bifvélavirkjun við VMA eftir langt hlé. Félag málmiðnaðarmanna lánar skólanum húsnæði sitt við Draupnisgötu 4 undir verklega kennslu, en þar er endurmenntunarmiðstöð þess til húsa. Viðræður standa nú yfir milli félagsins og skólans um viðbótarhúsnæði sem sárlega skortir til að unnt verði að bjóða nemum í bifvélavirkjun að ljúka námi norðan heiða. „Húsnæðismálin eru ekki í viðunandi horfi sem stendur, það vantar meira pláss, svona um 100 fermetra og ekki útlit fyrir að byggt verið við skólann alveg á næstunni. Við erum tilbúnir að taka þátt í að leysa húsnæðismálin annað hvort félagið eitt og sér eða í samvinnu við aðra. Við munum leggja okkur í líma við að brúa þetta bil, þar til byggt verður við Verkmenntaskólann," segir Hákon.

Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna var haldinn á dögunum, þar voru nýgerðir kjarasamningar kynntir og um þá urðu líflegar umræður en fundurinn var vel sóttur. Atkvæðagreiðslu er lokið og verður niðurstaða hennar að líkindum kynnt um eða eftir helgi. Afkoma félagsins á liðnu ári var að sögn formannsins mjög góð og efnahagur þess er traustur.

Nýjast