Fulltrúar samtakanna "Öll lífsins gæði" afhentu Hermanni Jóni Tómassyni formanni bæjarráðs Akureyrar undirskriftalista með
rúmlega 500 nöfnum í dag, þar sem mótmælt er hugmyndum um byggingu háhýsa á reitnum milli Undirhlíðar og Miðholts.
Það voru þeir feðgar Páll Magnússon og Valdimar Pálsson og Valdemar Valdemarsson, sem afhentu formanni bæjarráðs undirskriftalistanna.
Valdimar sagði að samtökin hefðu ekkert á móti því að byggt verði á umræddum reit "en við getum ekki sætt okkur við
þessa turna, sem þar eiga að rísa," sagði Valdimar. Undir það tók Valdemar og sagði að menn vildu sjá þarna byggð í
samræmi við þá sem fyrir er í hverfinu. Þeir félagar sögðu að götur í hverfinu væru ekki niður á fast og
því gæti umtalsvert rask á svæðinu haft áhrif á göturnar og jafnvel hús þeirra líka. Valdimar býr við Miðholt
en Valdemar í Stórholti.
Eins og fram hefur komið hefur byggingarfyrirtækið SS Byggir verið að leita eftir leyfi bæjaryfirvalda til að byggja tvö 7 hæða
fjölbýlishús fyrir allt að 70 íbúðir á svæðinu við Undirhlíð.