07. febrúar, 2008 - 14:33
Dómur í máli Félags skipstjórnarmanna gegn Brimi hf. féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 29. janúar sl. Í
málinu var m.a. deilt um hvort ófélagsbundnum launþegum bæri að greiða til stéttarfélags stéttarfélags- eða
vinnuréttargjöld, sem stundum eru nefnd svo. Félag skipstjórnarmanna vann sigur í málinu en niðurstaða dómsins er sú að ekki skiptir
máli hvort einstaklingar séu skráðir í stéttarfélag eða ekki, það þarf að greiða af þeim félagsgjöld til
viðkomandi stéttarfélaga. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir á vef félagsins að þarna sé um mjög
mikilvægan dóm að ræða.
"Við erum með nokkur mál í gangi af þessu tagi og niðurstaða dómsins, sem er að mínu mati mikilvægur fyrir verkalýðshreyfinguna,
gefur okkur tilefni til bjartsýni í þeim málum. Sem dæmi um slíkt mál má nefna atvinnurekanda með starfsemi á
félagssvæði Einingar-Iðju, sem ákvað einhliða að borga ekki gjöld af erlendum starfsmönnum sínum," segir Björn. "Í sambandi
við það mál höfum við upplýsingar frá Vinnumálastofnun. Vinnuveitandi tilkynnti að starfsmennirnir hefðu óskað eftir að ekki
yrðu greidd af þeim félagsgjöld, en á fundi sem starfsmenn Einingar-Iðju áttu með þessum sömu starfsmönnum kom í ljós að
þeir höfðu aldrei heyrt minnst á íslensk stéttarfélög og hvað þá að ekki væru greidd gjöld vegna þeirra til
félaganna. Þetta er grafalvarlegt ef rétt reynist og vekur upp spurningar um kröfur sem t.d. opinberir aðilar eins og ríki og sveitarfélög geri eða
geri ekki til verktaka sem samið hefur verið við um verk á grundvelli útboða. Ekki er hægt að líða að þátttakendur í
opinberum útboðum verði hlutskarpastir vegna þess að þeir geti sniðgengið reglur vinnumarkaðarins um lágmarkskjör starfsmanna," segir Björn
ennfremur á vef félagsins.